Klukk sagði Begga...

Það þýðir víst að ég á að útlista hér átta staðreyndir um sjálfa mig sem kannski eru ekki öllum kunnar...

1) Ég á fjögur systkyni, tvær stjúpsystur, tvö stykki foreldra, tvenna stjúpforeldra, einn afa, tvær ömmur, fjögur eintök af stjúp-öfum og ömmum, eitt barn og einn mann.

2) Mín uppáhalds dýr eru mörgæsir og ég safna litlum eftirmyndum af kvikindunum.

3) Einu sinni fór ég með hlutverk Hannesar Hólmsteins í uppfærslu Stúdentaleikhússins.

4) Þegar ég var 14 langaði mig fátt meira en að lita hárið á mér grænt.

5) Ég er með húðflúr á mjóbakinu hægra megin. Það er stjörnumerkið vogin, 17 ára afmælisgjöf frá mömmu minni.

6) Þegar ég var um níu ára dreymdi mig um að heita Stella...mér fannst það eitthvað svo skvísulegt.

7) Ég hef fjórum sinnum fengið gat á hökuna.

8) Ég borða ekki fiskibollur í dós og ferska tómata.

 


Megill á Menningarnótt...

IMG_0017Eins og góðum Reykvíkingum sæmir þrömmuðum við í bæinn á Menningarnótt. Hittum mann og annan enda veðrið frábært og gaman að vera úti. Eftir pizzuát í góðra vina hópi á Brávallagötunni lá leiðin á Miklatún. Herdís Anna sofnaði vært í vagninum á leiðinni og ég var viss um að hún myndi halda þeirri iðju áfram þar til heim væri komið. Svo var aldeilis ekki, um leið og fagrir tónar Á móti sól fóru að berast í nágrenni Miklatúns reis litla barnið upp við dogg og ætlaði sko ekki að missa af neinu. Þó henni hafi fundist gaman að dilla sér við Megas og Mannakorn var langskemmtilegast þegar allir klöppuðu í lok hvers lags. Ég var eitthvað að reyna að kenna henni að segja Megas, var spennt að heyra hvernig útkoman yrði, en það gekk ekkert mjög vel. Ég kallaði hann víst Megil þegar ég var á Herdísar aldri, en það er ekki að marka. Maður var svo geysilega meðvitaður hér í gamla daga. Kommarnir foreldrar mínir kenndu mér að segja þrjú orð þegar ég var að læra þau fyrstu: mamma, pabbi og Maó!

Flugeldasýningin var svo ógeðslega flott. Herdís Anna gapti af undrun og um leið og síðasti flugeldurinn fuðraði upp bað hún samstundis um meira! 

Annars þarf ég að fara að komast í bíó. Á samtals 20 bíómiða á Bíódaga Græna ljóssins sem ég þarf að fara að koma í lóg. Er reyndar búin að sjá tvær myndir á hátíðinni, Sicko sem ég sá reyndar líka í Cannes, afar vön! Svo sá ég líka The Bridge sem var ansi mögnuð. Merkileg og vel gerð mynd um fólk sem hoppar viljandi fram af Golden Gate brúnni.

 

 


Danmörk og London...

leifsstöðVið Herdís Anna og mamma fórum í frábæra stelpuferð til Köben. Herdís var afar spennt strax í Leifsstöð, tuskaðist um og aflaði sér vina á öllum aldri.

Eitthvað varð hún þó lúin þegar nær dró flugferð og ákvað því að troða sér inn í röðina í gjaldeyrisviðskipti Landsbankans og leggja sig örstutta stund!

 Flurgferðin fór svo í að hafa ofan fyrir unganum með límdóti og litum. Það gekk bara furðu vel enda barnið orðið frekar flugvant!

Friðrik konungur bauð okkur svo athvarf...reyndar ekki krónprinsinn því miður! Við gistum nefnilega á þessu fína hóteli kenndu við kónginn gamla. Í herberginu okkar var meðal annars að finna betri stofu þar sem við mamma sátum við saumaskap og rauðvínsdrykkju á kvöldin eftir að Herdís Anna færði sófa. Ég reyndi mitt besta í ferðinni til að koma Herdísi Önnu í návígi við framtíðareiginmanninn en Christian litli var greinilega annarsstaðar en í dýragarðinum og tívolí þessa helgina.

 

 

dýra Dýragarðurinn var náttúrulega paradís fyrir litla dýraáhugakonu. Hún horfði mjög athugul á það sem fram fór í hverju búri en mesta athygli fengu gíraffarnir, aparnir og fílarnir. Einn þeirra síðastnefndu sneri reyndar í okkur óæðri endanum og kúkaði heil ósköp. Ég þarf greinilega að fara að fræða dóttur mína betur í líffræðinni því hún leit á mig og sagði: "Nammi!". En öll dýrahljóðin voru leikin með tilþrifum og ég held að selirnir hafi verið hálf hræddir við rauðklædda barnið sem hamaðist á búrinu þeirra og hermdi eftir selahljóðum. Eins lagðist hún á eitt búrið og æpti: "Bakka, bakka!". Eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að í búrinu voru skjaldbökur, ekki veit ég hvenær hún lærði að segja það.

Tívolí var líka hresst. Vegna smæðar minnsta ferðalangsins urðu ferðirnar í tækin ekki eins margar og síðast, en ég brá mér þó eina ferð í Dæmonen! Eina tækið sem þeir sem eru 84  sentimetrar á hæð mega fara í er hringekjan og því tókum við tvo snúninga í henni.

Og svo meiri ferðalög því síðustu helgi fórum við Svenni til London að spóka okkur. Borðuðum frábæran mat, skoðuðum borgina og versluðum smá. Það var alveg frábært en það var líka gott að koma heim til litlu stelpunnar sem var búinn að læra að segja appelsínugulur! 


Myndarleg...

JQ2X6933Voða er það smart eitthvað að borga fötluðum einstaklingum eiungis fyrir 14 tíma vinnuviku þegar fólkið vinnur í reynd 20 tíma. "Ekki eru til nógir peningar" er ástæðan. Mér finnst samt vanta útskýringu á hvers vegna fólkið fær þá ekki bara 14 tíma vinnu á viku og fær að eyða tímanum sínum í eitthvað annað þess á milli.
Annars fer að líða að Kaupmannahafnarferð okkar mömmu og Herdísar Önnu. Svenni ætlar á meðan að færa björg í bú (vonandi!) í Veiðivötnum. Hlakka til að koma aftur til Köben, stefnan er tekin á útsölumok, smurbrauðsát, ölþamb, spássitúra, dýragarðsgláp, hringekjuferðir og fleira skemmtilegt. Vona að rigningin fari að klárast þarna hjá þeim, þetta fer að verða komið gott.
Fórum annars með Herdísi í myndatöku til Árna frænda (hans Palla, en samt okkar allra) Torfasonar í gær. Hann sendi mér tvær myndir áðan, meðal annars þessa hér til hliðar. Ég vona að það sé í lagi að birta hana svona opinberlega, en Árni á hana, vei ykkur sem hyggist stela henni!

Reyklaust fjör með Þorgrími...

Meira, meira veðurblogg! Það er sannarlega hvergi betra að vera en á Íslandi þegar veðrið er svona gott!
Áttum þessa fínu helgi við gras-mægður. Sóluðum okkur með húsráðendum á Ásalæk á föstudag og laugardag. Litla barnið var svo skilið eftir í sveitinni því ég hélt partý fyrir vinnufélagana. Þar fór meðal annars fram stórskemmtilegur partý-leikur. Hver og einn gestur (nokkrir svinduðu reyndar) átti að koma með disk með þremur lögum á, lögum sem viðkomandi heldur uppá en hinir vita kannski ekki að hann heldur uppá. Diskarnir voru svo spilaðir og hver og einn giskaði hver ætti hvaða disk. Það er skemmst frá því að segja að við virðumst ekkert sérstaklega upplýst um tónlistarsmekk hvers annars!
Leiðin lá svo í reyklausan bæinn, þvílíkur munur. Ég hefði ekki trúað því. Morguninn eftir leið mér líka eins og ég herði verið að hlaupa á Esjuna daginn áður en ekki hanga á öldurhúsum bæjarins framundir morgun...svona eiginlega.
Í blíðunni í gær brá ég mér svo í golf í fyrsta sinn á ævinni. Fór með vinkonu minni á smá námskeið en markmiðið er í fyrsta lagi að vinna Svenna og öðru lagi að vinna pabba en þeir eru báðir annálaðir golf-hestar.
Svo er meira grill og meiri sól í kvöld. Um að gera að njóta sólarinnar áður en haldið verður í rigninguna í Kaupmannahöfn um helgina...

Ókurteisir fiskar...

                                           happy sun                                             Jæks hvað er gott veður! Ég hlakka svo til að tölta niður í bæ á eftir með Herdísi, spæna í mig ís og safna freknum.
Fórum í Húsdýragarðinn í gær með afa og ömmu í Sævó. Herdísi fannst selirnir eiginlega mest spennandi en svo var líka frábært að sjá gadl gadl (kanínu!). Hin kurteisa dóttir mín heilsaði hverju dýri fyrir sig með virktum. Eitthvað stóð á svörum og voru fiskarnir sérstaklega tregir til að heilsa á móti þá barnið lægi á fiskabúrinu hrópandi HÆ! HÆ! Ég hlakka mikið til að fara með hana í dýragarðinn í Köben í næstu viku. Eins gott að "hæ" hljómar eins á íslensku og dönsku.
Mamma og Kristján ætla að fara með Herdísi í ferðalag á morgun yfir nótt. Þau fara um miðjan daginn sem þýðir að ég verð ein heima í marga klukkutíma, en það hefur ekki gerst síðan....já síðan hvenær? Veit ekki alveg hvað ég ætla af mér að gera... Um kvöldið ætla samt vinnufélagar mínir að koma í heimsókn skemmta sér með mér í einverunni.
Hmmm hvernig ís ætti ég annars að fá mér á eftir...


Kvintett kenndur við krydd...

spice_girls_3Í Morgunblaðinu 29. júní:
 
Ert þú á aldrinum 18 til 23 ára og kannt að dansa og syngja? Ertu götukæn (streetwise), metnaðarfull, mannblendin og dygg?" Á þessa leið hljómaði auglýsing í tímaritinu The Stage í mars árið 1994.

Hundruð dansglaðra og mannblendinna stúlkna sóttu um en umboðsmennirnir Chris og Bob Herbert og fjármagnarinn Chic Murphy völdu á endanum fimm stúlkur sem áttu að skipa fyrstu stúknasveit sögunnar.

Hugmyndin var að koma á mótvægi við strákaböndin sem á tíunda áratugnum tröllriðu áhugasviðum ungmenna um heim allan.

Stelpurnar útvöldu voru allar breskar og hétu Victoria Adams, Melanie Brown, Melanie Chisholm, Geri Halliwell og Michelle Stephenson. Sveitin fékk nafnið Touch og í hönd fóru miklar dans- og raddæfingar. Stúlkurnar fimm fluttu saman í hús í eigu Murphys, skráðu sig allar á atvinnuleysisbætur og einbeittu sér að hinu nýja starfi sem enn gaf lítið í aðra hönd.

Fljótlega varð ráðamönnum ljóst að Michelle hafði ekki til að bera það sem þeir leituðu eftir. Henni var því vikið úr sveitinni en Michelle sagðist í viðtölum hafa hætt sjálfviljug vegna veikinda móður sinnar.

Átján ára blondína, Emma Bunton, varð í kjölfarið fimmta hjólið undir vagninum.

Eftir nokkur vandræði með umboðsskrifstofur og útgefendur skrifaði sveitin, sem þá hafði fengið heitið Spice Girls, undir útgáfusamning við Virgin Records.

Mánudagurinn 8. júlí árið 1996 er þeim stöllum trúlega enn í fersku minni. Þá kom út fyrsta smáskífa Spice Girls, ofursmellurinn "Wannabe". Upptalning á tölulegum staðreyndum er sjaldan skemmtileg en ekki er hægt að komast hjá því að nefna að lagið komst í efsta sæti vinsældarlista í 32 löndum um heim allan og kvintettinn sem kenndi sig við krydd náði meira að segja að brjóta sér leið inn á vinsældalista í Bandaríkjunum og náði á mörgum þeirra besta árangri breskra listamanna, að Bítlunum meðtöldum.

Kryddstúlkurnar voru nú á allra vörum. Krakkar veggfóðruðu herbergi sín með myndum af stúlkunum og allir áttu sitt uppáhaldskrydd en þær Victoria, Mel B, Mel C, Emma og Geri áttu sér allar kryddlegin gælunöfn: Posh, Scary, Sporty, Baby og Ginger. Fatnaður stúlknanna teldist seint til þess smekklegasta í dag en allt var þetta hluti af ímyndinni. Því var oft haldið fram að Kryddstúlkurnar væri þekktasta hljómsveit sögunnar síðan drengir að nafni John, Paul, Ringo og George gerðu allt vitlaust.

Hljómsveitin var draumur allra markaðsmógúla og alls kyns varningur tengdur stúlkunum var á boðstólum. Slagorðið "Girl Power" var gjarnan nefnt í sömu andrá og Spice Girls og heimsbyggðin virtist greinilega tilbúin fyrir popphljómsveit eingöngu skipaða stelpum.

Þær héldu áfram að raða lögum á vinsældalista um heim allan.

Árið 1997 kom út plata númer tvö, Spiceworld, aðeins níu mánuðum á eftir fyrstu plötunni. Í desember sama ár kom út kvikmyndin Spiceworld: The Movie. Ungviðið virtist ekki geta fengið nóg af stúlkunum en mörgum fannst nóg um.

Geri Halliwell sagði svo skilið við hljómsveitina á miðju tónleikaferðalagi í maí 1998. Ástæðan var ósætti innan sveitarinnar en fregnir hermdu að samstarf hennar og Mel B væri ekki með besta móti.

Hinar fjórar héldu þó ótrauðar áfram og fyrsta smáskífa þeirra fjögurra hét hvorki meira né minna en "Viva Forever". Þrátt fyrir titilinn varð Forever (frá árinu 2000) þeirra síðasta plata.

Kryddstúlkurnar ákváðu í kjölfarið að taka sér frí og þær Victoria, Emma, og Mel B og C fóru hver í sína áttina.

Flestar hafa þær reynt fyrir sér sem sjálfstæðir listamenn en engin þeirra slegið rækilega í gegn. Victoria, nú Beckham, gerði veika tilraun til frægðar og frama með einu hrútlélegu tölvupoppslagi. Sem betur fer urðu þau ekki fleiri. Frú Beckham hefur í auknum mæli snúið sér að fatahönnun og þykir vera fyrirmynd margra á sviði tísku. Nær daglega má sjá myndir af henni með sinn fræga stút á munninum.

Mel C hljóðritaði nokkur lög og er víst enn að. Hún var dugleg að syngja dúetta og gaf meðal annars út nokkuð vinsæl lög með annarsvegar Bryan Adams og hinsvegar Lizu "Left-Eye" Lopez heitinni.

Þær Geri, Emma og Mel B gáfu líka út lög en einkalíf þeirrar síðastnefndu hefur mikið verið í fjölmiðlum að undanförnu. Hún átti nefnilega í ástarsambandi við Eddie Murphy sem, ef marka má fregnir fjölmiðla, gæti hæglega verið vel að nafnbótinni "skúrkur ársins" kominn. Ekki nóg með að Mel hafi komist að endalokum sambands þeirra með því að lesa um það í blöðunum heldur bættist við að Eddie neitaði alfarið að gangast við því að vera faðir tveggja mánaða dóttur Mel, sem með nýlegri blóðrannsókn kom í ljós að er af hans holdi og blóði.

Fregnir um endurnýjun Kryddpíanna hafa verið á kreiki eiginlega allt frá því að sveitin lagði upp laupana. Nú er hinsvegar komið að því. Spice Girls tilkynntu á blaðamannafundi í London í gær að þær hygðu á tónleikaferðalag um heiminn í desember. Herlegheitin hefjast í Los Angeles í desember og Spice Girls leika í kjölfarið í Evrópu, Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Mel C sagði reyndar í viðtali á dögunum að kæmu þær saman aftur yrði það einfaldlega til að segja bless í síðasta sinn, ekki til að blása lífi í sveitina að nýju. Hvort sú sportlega hefur rétt fyrir sér eða hvort við fáum að heyra nýtt efni frá fimmmenningunum verður að koma í ljós.

Birta Björnsdóttir (birta@mbl.is)


Best að prófa aftur að vera með blog...

barbapapaFínt að byrja á léttu nótunum! Það væri óskandi að sumarið hefði verið jafn gott í fyrra þegar ég átti "barnafrí" allt sumarið. En ég kvarta ekki, við Herdís spásseruðum um bæinn í dag. Heimsóttum ömmu Hrefnu og ömmu Áslaugu í vinnuna. Grýttum brauði í endurnar (allavega Herdís). Henni finnst það fáránlega skemmtilegt og ég sá alveg badmintonhæfileika föðurins koma í ljós þegar barnið sveiflaði brauðmolum útí tjörn. Mestu munaði að litli kroppurinn fylgdi á eftir, svo mikill var hamagangurinn! Við gáfum nefnilega öndunum um daginn og síðan segir Herdís við mig daglega: "Gagaga (fuglar) mmnammi (matur)". Hittum svo Ingu óvænt í hádegismat og náðum svo að spóka okkur talsvert áður en ég fór í vinnuna.

Sveinn er nú hættur að sofa. Veiðitímabilið er hafið og hann getur varla á sér heilum tekið að hafa ekki enn komist út í vötn eða á. Það stendur þó til bóta um helgina svo við Herdís verðum grasekkja og...grasbarn...er það til?!? 

Annars er um fátt annað rætt á heimilinu en Barbapabba. Svenni reyndar tjáir sig ekkert sérstaklega mikið um hann en unginn þusar Bababababa allan daginn. Hún á þennan forláta Barbapabba-sparibauk sem var orðinn helst til þungur fyrir litlar hendur. Við fórum því í bankann í dag og létum létta á honum og nú er Babababababababa orðinn afar meðfærilegur og fær að rússa um í dúkkukerru milli þess sem hann er kysstur og faðmaður. 


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Um bloggið

Birta

Höfundur

Birta Björnsdóttir
Birta Björnsdóttir
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_0017
  • ...herra_saell
  • dýra
  • leifsstöð
  • JQ2X6933

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband