Kvintett kenndur við krydd...

spice_girls_3Í Morgunblaðinu 29. júní:
 
Ert þú á aldrinum 18 til 23 ára og kannt að dansa og syngja? Ertu götukæn (streetwise), metnaðarfull, mannblendin og dygg?" Á þessa leið hljómaði auglýsing í tímaritinu The Stage í mars árið 1994.

Hundruð dansglaðra og mannblendinna stúlkna sóttu um en umboðsmennirnir Chris og Bob Herbert og fjármagnarinn Chic Murphy völdu á endanum fimm stúlkur sem áttu að skipa fyrstu stúknasveit sögunnar.

Hugmyndin var að koma á mótvægi við strákaböndin sem á tíunda áratugnum tröllriðu áhugasviðum ungmenna um heim allan.

Stelpurnar útvöldu voru allar breskar og hétu Victoria Adams, Melanie Brown, Melanie Chisholm, Geri Halliwell og Michelle Stephenson. Sveitin fékk nafnið Touch og í hönd fóru miklar dans- og raddæfingar. Stúlkurnar fimm fluttu saman í hús í eigu Murphys, skráðu sig allar á atvinnuleysisbætur og einbeittu sér að hinu nýja starfi sem enn gaf lítið í aðra hönd.

Fljótlega varð ráðamönnum ljóst að Michelle hafði ekki til að bera það sem þeir leituðu eftir. Henni var því vikið úr sveitinni en Michelle sagðist í viðtölum hafa hætt sjálfviljug vegna veikinda móður sinnar.

Átján ára blondína, Emma Bunton, varð í kjölfarið fimmta hjólið undir vagninum.

Eftir nokkur vandræði með umboðsskrifstofur og útgefendur skrifaði sveitin, sem þá hafði fengið heitið Spice Girls, undir útgáfusamning við Virgin Records.

Mánudagurinn 8. júlí árið 1996 er þeim stöllum trúlega enn í fersku minni. Þá kom út fyrsta smáskífa Spice Girls, ofursmellurinn "Wannabe". Upptalning á tölulegum staðreyndum er sjaldan skemmtileg en ekki er hægt að komast hjá því að nefna að lagið komst í efsta sæti vinsældarlista í 32 löndum um heim allan og kvintettinn sem kenndi sig við krydd náði meira að segja að brjóta sér leið inn á vinsældalista í Bandaríkjunum og náði á mörgum þeirra besta árangri breskra listamanna, að Bítlunum meðtöldum.

Kryddstúlkurnar voru nú á allra vörum. Krakkar veggfóðruðu herbergi sín með myndum af stúlkunum og allir áttu sitt uppáhaldskrydd en þær Victoria, Mel B, Mel C, Emma og Geri áttu sér allar kryddlegin gælunöfn: Posh, Scary, Sporty, Baby og Ginger. Fatnaður stúlknanna teldist seint til þess smekklegasta í dag en allt var þetta hluti af ímyndinni. Því var oft haldið fram að Kryddstúlkurnar væri þekktasta hljómsveit sögunnar síðan drengir að nafni John, Paul, Ringo og George gerðu allt vitlaust.

Hljómsveitin var draumur allra markaðsmógúla og alls kyns varningur tengdur stúlkunum var á boðstólum. Slagorðið "Girl Power" var gjarnan nefnt í sömu andrá og Spice Girls og heimsbyggðin virtist greinilega tilbúin fyrir popphljómsveit eingöngu skipaða stelpum.

Þær héldu áfram að raða lögum á vinsældalista um heim allan.

Árið 1997 kom út plata númer tvö, Spiceworld, aðeins níu mánuðum á eftir fyrstu plötunni. Í desember sama ár kom út kvikmyndin Spiceworld: The Movie. Ungviðið virtist ekki geta fengið nóg af stúlkunum en mörgum fannst nóg um.

Geri Halliwell sagði svo skilið við hljómsveitina á miðju tónleikaferðalagi í maí 1998. Ástæðan var ósætti innan sveitarinnar en fregnir hermdu að samstarf hennar og Mel B væri ekki með besta móti.

Hinar fjórar héldu þó ótrauðar áfram og fyrsta smáskífa þeirra fjögurra hét hvorki meira né minna en "Viva Forever". Þrátt fyrir titilinn varð Forever (frá árinu 2000) þeirra síðasta plata.

Kryddstúlkurnar ákváðu í kjölfarið að taka sér frí og þær Victoria, Emma, og Mel B og C fóru hver í sína áttina.

Flestar hafa þær reynt fyrir sér sem sjálfstæðir listamenn en engin þeirra slegið rækilega í gegn. Victoria, nú Beckham, gerði veika tilraun til frægðar og frama með einu hrútlélegu tölvupoppslagi. Sem betur fer urðu þau ekki fleiri. Frú Beckham hefur í auknum mæli snúið sér að fatahönnun og þykir vera fyrirmynd margra á sviði tísku. Nær daglega má sjá myndir af henni með sinn fræga stút á munninum.

Mel C hljóðritaði nokkur lög og er víst enn að. Hún var dugleg að syngja dúetta og gaf meðal annars út nokkuð vinsæl lög með annarsvegar Bryan Adams og hinsvegar Lizu "Left-Eye" Lopez heitinni.

Þær Geri, Emma og Mel B gáfu líka út lög en einkalíf þeirrar síðastnefndu hefur mikið verið í fjölmiðlum að undanförnu. Hún átti nefnilega í ástarsambandi við Eddie Murphy sem, ef marka má fregnir fjölmiðla, gæti hæglega verið vel að nafnbótinni "skúrkur ársins" kominn. Ekki nóg með að Mel hafi komist að endalokum sambands þeirra með því að lesa um það í blöðunum heldur bættist við að Eddie neitaði alfarið að gangast við því að vera faðir tveggja mánaða dóttur Mel, sem með nýlegri blóðrannsókn kom í ljós að er af hans holdi og blóði.

Fregnir um endurnýjun Kryddpíanna hafa verið á kreiki eiginlega allt frá því að sveitin lagði upp laupana. Nú er hinsvegar komið að því. Spice Girls tilkynntu á blaðamannafundi í London í gær að þær hygðu á tónleikaferðalag um heiminn í desember. Herlegheitin hefjast í Los Angeles í desember og Spice Girls leika í kjölfarið í Evrópu, Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Mel C sagði reyndar í viðtali á dögunum að kæmu þær saman aftur yrði það einfaldlega til að segja bless í síðasta sinn, ekki til að blása lífi í sveitina að nýju. Hvort sú sportlega hefur rétt fyrir sér eða hvort við fáum að heyra nýtt efni frá fimmmenningunum verður að koma í ljós.

Birta Björnsdóttir (birta@mbl.is)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Birta

Höfundur

Birta Björnsdóttir
Birta Björnsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_0017
  • ...herra_saell
  • dýra
  • leifsstöð
  • JQ2X6933

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband